Íslandsmeistaramót EFSA Íslands 2017. Ólafsvík 25. til 27. maí. |
Skrifað af Administrator |
Miðvikudagur, 31 Maí 2017 20:46 |
Fjölmennt sjóstangaveiðimót var haldið frá Ólafsvík dagana 25. til 27. maí sl. á vegum EFSA Íslands með þátttöku 46 veiðimanna, þar af þrjár konur. Veiðimenn frá sex þjóðum tóku þátt og fjölmennastir voru keppendur frá Englandi eða átján. Keppendur frá Írlandi voru ellefu, frá Skotlandi komu fimm, frá Íslandi níu, tveir frá Belgíu og einn frá Rússlandi.
Keppt var á ellefu bátum með þrjá til fimm veiðimenn um borð í hverjum báti og fór fjöldinn eftir stærð báta. Fyrsta keppnisdaginn fimmtudaginn 25. maí urðu veiðimenn að vera í landi vegna brælu. Annan veiðidaginn föstudaginn 26. maí var tegundaveiði og keppt eftir veiðireglum EFSA, þ.e. að veiða sem flestar tegundir fiska fremur en magn afla. Þriðja veiðidaginn laugardaginn 27. maí var reynt að veiða einungis stóra þorska og ufsa og gáfu stærstu fiskarnir sem voru yfir 90 cm. flest stig. Veiðitíminn var sex klukkustundir hvorn veiðidaginn og veiddust alls 2.100 fiskar báða dagana.
Árangur keppanda reiknast þannig að fyrir hvern veiðidag er reiknað út skor keppenda þar sem hver bátur er reiknaður út í aflastigum talið á veiðimann. Hver fiskitegund og stærð fiska gefur mismörg aflastig, en leyft er að veiða tíu fiska í hverri tegund í tegundakeppni. Sá veiðimaður vinnur bát sinn sem flest aflastig fær á viðkomandi báti og hlýtur 100% skor en aðrir veiðimenn á sama báti hlutfall af því skori. Ef tveir veiðimenn um borð í sama báti eru með jafnmörg aflastig er næst tekið tillit til fjölda veiddra fiska hjá viðkomandi keppanda. Árangur eða skor veiðimanns báða veiðidagana er lagt saman og vinnur sá keppandi mótið sem samtals hefur hæstu skor. Keppt var einnig í tvímennings- og fjórmenningssveitum og um stærsta fiskinn í hverri fisktegund mælt eftir lengd.
Íslandsmeistari karla varð Helgi Bergsson með 182,14% skor. Í öðru sæti varð Þórir Sveinsson með 149,82% skor og í þriðja sæti varð Hersir Gíslason með 131,61% skor. Íslandsmeistari kvenna varð Sigríður Rögnvaldsdóttir með 145,36% skor.
Erlendir keppendur tóku ekki þátt í keppninni til Íslandsmeistara en til annarra verðlauna í mótinu. Stigahæstu veiðimennirnir í mótinu voru allir með 200% skor eftir tvo veiðidaga eða þeir Kim Bowden, Englandi, Roy Shipway, Írlandi og Robbie Robertson, Skotlandi.
Alls veiddust níu tegundir fiska í mótinu; þorskur, ufsi, ýsa, sandkoli, karfi, lýsa, steinbítur, langa og rauðspretta. Stærsti fiskur mótsins var þorskur sem mældist 122 cm., veiðimaður Ray Mackay, Skotlandi. Mótið frá Ólafsvík var undirbúningsmót fyrir Evrópumótið í sjóstangaveiði sem haldið verður frá Ólafsvík í lok maí á næsta ári og má búast við fjölmenni enda Ísland þekkt í Evrópu sem staður þar vænta má góðrar veiði. |
Síðast uppfært: Mánudagur, 05 Júní 2017 17:41 |