Home
Úlfar Eysteinsson. Veiðifélagar kveða góðan félaga. Prenta út Senda hlekk á þessa síðu til vinar
Skrifað af Helgi Bergsson   
Mánudagur, 22 Október 2018 21:18

Úlfar Eysteinsson félagi í EFSA Íslandi (European Federation of Sea Anglers – Section Iceland) lést miðvikudaginn 10. október 2018 í Reykjavík eftir erfið veikindi.

Úlli eins og hann var að jafnaði kallaður af sjóstangaveiðifélögum hans var einn af tíu félögum EFSA Íslands sem endurreisti félagið í janúar 1998. Hann var fyrsti gjaldkeri félagsins og voru stjórnarfundir fystu árin að jafnan haldnir á heimili hans við Bakkabraut í Kópavogi. Seinni árin allt fram á þennan dag lánaði Úlfar undir starfsemi félagsins húsnæði sitt á 2. hæð við Baldurgötu 14 Reykjavík þar sem á fyrstu hæð er veitingarstaðurinn Þrír frakkar.

Úlfar tók þátt í fjölmörgum sjóstangaveiðikeppnum á vegum félagins þar sem hann var hrókur alls fagnaðar og var unun að vera með honum um borð. Kímnin, glaðværðin og vinahót var ætíð í fyrirrúmi hjá honum og var hann ekki tapsár þótt næsti veiðimaður fengi stærri eða fleiri fiska en hann í það skiptið, mestu máli skipti að hafa gaman að veiðiskapnum og una sér í hópi góðra félaga. Minnisstætt er Íslandsmeistarmótið í sjóstangaveiði í byrjun apríl árið 2005. Siglt var frá Kópavogshöfn á bátnum Jóni forseta ásamt öðrum báti þar sem höfuðáherslan var lögð á að veiða steinbít enda bann við þorskveiði vegna hrygningar í byrjun apríl. Báturinn Jón forseti var gamall trébátur í eigu Úlfar og gekk einungis sjö sjómílur að hámarki. Úlfar var skipstjórinn á bátnum og píndi hann vél bátsins sem frekast hann gat enda ætlaði hann ekki að verða langt á eftir hinum bátunum á steinbítsmiðin á miðjum Faxaflóa. Mikill og svartur reykur steig upp frá strompi bátsins og svo mikill var reykurinn að veiðimönnum stóð ekki á sama enda kom hinn báturinn upp að Jóni forseta til að aðgæta hvort kviknað væri í bátunum. Svo reyndist ekki vera en Úlfar sló af ferðinni og kom öllum um borð heilum í höfn á ný eftir ánægjulegan veiðidag.

Úlfar og fyrrum sambýliskona hans skipulögðu fyrstu meiriháttar ferð félaga í EFSA Íslandi á mjög fjölmennt Evrópumót í sjóstangaveiði sem haldið var á Írlandi í september árið 2001. Margur félaginn fór þar í sína fyrstu Evrópukeppni sem við minnumst enn með hlýhug.

Úlfars verður sárt saknað af veiðifélögum hans.

EFSA Ísland vottar börnum og fjölskyldu Úlfars Eysteinssonar dýpstu samúð og þakkar honum nú að leiðarlokum áralangt samstarf og þátttöku í fjölmörgum mótum félagsins.

Helgi Bergsson, formaður EFSA Íslands.

Þórir Sveinsson, ritari EFSA Íslands.

Skarphéðinn Ásbjörnsson, stjórnarmaður í EFSA.

 
EFSA Iceland
Afritunarréttur © 2021 EFSA Iceland. Öll Réttindi Áskilin.
Joomla! er frír hugbúnaður gefinn út með GNU/GPL Leyfinu.