Skýrsla stjórnar EFSA Íslandi fyrir starfsárið 2009
(Flutt á aðalfundi félagsins sem fram fór í Reykjavík þann 20. mars 2009)
Starf EFSA Íslandi á síðasta starfsári byggðist að miklum hluta á undirbúningi vegna Evrópumótsins sem fram fer í maí næstkomandi en vinna undirbúningsnefndar mótsins hefur nú þegar staðið yfir í rúm tvö ár.
Í lok apríl 09 sótti formaður vorfund Fulltrúaráðs EFSA í Gatwick. Þar gerði hann m.a. grein fyrir stöðu mála varðandi undirbúning evrópumótsins. Óskaði hann eftir viðbótarfjölda í þorski, ufsa og ýsu að 25 fiskum í hverri tegund. Var það samþykkt af Fulltrúaráðinu.
Dagana 15. -16. maí var svo haldið undirbúningsmót á Dalvík þar sem reynt var að líkja sem mest eftir öllum framkvæmdaatriðum hins væntanlega móts. Nutum við liðsinnis nokkurra Skota sem komu til að þátt í mótinu. Er óhætt að segja að við höfum rekið okkur á allmarga hnökra sem upp komu og vonandi höfum við lært af þeim. Fjöldi keppenda í mótinu var einungis 19 og var afli í mótinu um hálft tonn. Mótið var einnig Íslandsmeistaramót EFSA Íslandi og urðu Íslandsmeistarar 2009 þau Sigríður Kjartansdóttir og Alastair Forsyth.
Í lok maí héldu fjórir félagar EFSA Ísland til Plymouth á Englandi til að taka þátt í tegundarmóti EFSA 2009 en var það Conger (Hafáll) sem var viðfangesfnið. Gerðu þeir félagar góða ferð og komu með nokkur verðlaun heim með sér í farteskinu. Má þar nefna að Ólafur Guðmundsson og Kristbjörn Rafnsson urðu í 2. sæti í 2ja manna sveitarkeppni, Ólafur, Kristbjörn, Helgi Bergsson og Ólafur Jónsson urðu í 2. sæti í 2ja manna sveitarkeppni og Kristbjörn varð í 1. sæti í tölvudreginni sveitarkeppni en Ólafur Guðmundsson í 3. sæti.
Dagana 19. – 20. júní var haldið strandveiðimót frá Sauðárkróki. Tvær nýjar tegundir sem ekki hafa fengist í strandveiðimótum veiddust í mótinu, bleikja og sjóbirtingur. Íslandsmeistari í strandveiði 2009 varð Skarphéðinn Ásbjörnsson.
Í júlí var svo mótsbæklingur Evrópumótsins á Dalvík gefinn út og sendur til félaga EFSA Íslands og erlendra EFSA aðilarfélaga ásamt því að hann var birtur á heimasíðu okkar.
Í ágúst fóru 8 félagar EFSA Ísland til Orkneyja til að taka þátt í báta og línukeppni EFSA sem haldin var þar. Þórir Sveinsson ritari hefur skrifað ágæta skýrslu um för Íslendinganna og má lesa hana á heimasíðu félagsins. Formaður og ritari sátu í þeirri ferð fund Fulltrúaráðs EFSA. Lagði formaður fram á þeim fundi tvær undanþágubeiðnar frá almennum reglum EFSA vegna evrópumótsins nú í vor. Sú fyrri var að heimilað yrði að skipstjórar og aðstoðarmenn á bátum gerðu að öllum afla sem um borð kæmi fyrir veiðimenn. Var þetta gert til þess að fá sem besta meðhöndlun á aflanum sem ætlunin er að selja á markaði. Seinni tillagan var að óheimilt yrði að lyfta fiski innbyrðis á veiðistönginni. Er þetta gert í varúðarskyni vegna þeirrar hættu sem getur skapast ef fiskur fellur af ofan yfirborðs þá hendist slóði eða pilkur innfyrir með tilheyrandi slysahættu. Báðar undanþágubeiðnirnar voru samþykktar samhljóða. Ritari dreifði á fundinum mótsbæklingi Dalvíkurmótsins og var ekki annað að sjá en mikil eftirvænting ríkti meðal væntanlegra erlendra þáttakenda.
Í nóvember tóku tveir félagar EFSA Ísland þátt í Evrópumóti EFSA í strandveiði sem haldið var á Langeland í Danmörku. Helgi Bergsson vann tvenn gullverðlaun á því móti, í 2ja manna sveit og í flokki ævifélaga (lifemember).
Á haustmánuðum jókst enn vinna undirbúningsnefndarinnar og hefur hún haft í miklu að snúast undanfarnar vikur og mánuði. Fjöldi erlendra keppenda í mótinu í vor er um 130 auk 12 Íslendinga. Endanleg tala Íslendinga liggur þó ekki fyrir fyrr en að loknum aðalfundi þar sem verður tekin ákvörðun um styrkveitingu til þeirra.
Ég vill að marggefnu tilefni minna félagsmenn á Íslenska þýðingu grunnveiðireglna EFSA sem aðgengilegar eru á heimasíðunni og bið alla félagsmenn um að kynna sér þær að fremsta megni. Áríðandi er í komandi evrópumóti á Dalvík að við séum sem best að okkur í þeim ásamt sjálfum reglum mótsins. Ég vill einnig ítreka beiðni mína til sem flestra félaga að leggjast á árarnar með undirbúningsnefndinni í undirbúningi og við framkvæmd hins komandi stórmóts.
Á árinu féllu tveir félagar EFSA Íslands frá, þau Sonja Guðlaugsdóttir sem dó í maí sl. og Birgir Ævarsson sem dó í ágúst. Er þeirra sárt saknað og vill ég að við vottum þeim virðingu okkar með mínútu þögn.
Að lokum vil ég þakka stjórninni, undirbúningshópnum og öllum þeim sem komu að starfi félagsins á liðnu ári kærlega fyrir mikla vinnu og gott og ánægjulegt samstarf.
Með bestu veiðikveðjum,
EFSA Íslandi
Formaður
Skarphéðinn Ásbjörnsson |